Kristveig í Sveré

Monday, May 30, 2005

Geðveik helgi!

Fór í leikhús á Rambó á föstudagskvöldið og það var sennilega steiktasta sýning sem ég hef farið á um æfina. Það voru nú alveg fyndin atriði í þessu en þess á milli var þetta bara dóprugl sem samanstóð aðallega af textanum fuck you, motherfucker, fuck you, shut the fuck up... o.s.frv.
Nokkuð merkileg upplifun...

Á laugardaginn fór ég svo ásamt Kristbjörgu og tveimur vinkonum hennar á Snæfellsjökul og það var algjört æði! Fengum fullkomið veður; logn, sól og örugglega 15 stiga hita. Fórum með troðara upp og renndum okkur svo á skíðum/brettum niður í ótrúlega góðu færi! Þvílík snilld! Mæli eindregið með svona ferð.

Í gær drifum við Dagný okkur svo á Keili. Lögðum af stað á hlírabolunum í sól og blíðu. Á miðri leið að fjallinu heyrðum við svo rosalegustu þrumur sem ég hef heyrt á Íslandi! En við héldum samt áfram og þegar komið var að Keili var dregið fyrir sólu og þegar við vorum hér um bil komnar upp þá byrjaði þetta líka svakalega haglél! Við drösluðumst samt upp á topp og stóðum þar í dálitla stund í haglinu áður en við hröðuðum okkur niður aftur. Þegar við vorum komnar niður og vel af stað í átt að bílnum hætti haglið og áður en við komum á leiðarenda var aftur komin sól. Assgoti hressandi ferð verð ég að segja! :)

Monday, May 23, 2005

Icy flokkurinn rokkar feitt!

Fór á Nasa á laugardagskvöldið og það var algjör snilld!
Þar komu komu margir helstu Júró þátttakendur Íslands fram, m.a. Icy hópurinn, Sigga&Grétar, Stebbi&Eyfi, Jónsi o.fl. Geggjað stuð!
Við vinkonurnar byrjuðum á að mynda geðveika stemningu í röðinni fyrir utan Nasa. Þar sungum við hástöfum alls kyns júrólög, tókum t.d. norska lagið a.m.k. 5 sinnum og svo vorum við farnar að taka við óskalögum frá fólkinu í kringum okkur í röðinni... Held að okkur hafi á endanum verið hleypt inn því dyraverðirnir nenntu ekki að hlusta á okkur lengur... hehe... Ég dansaði af mér lappirnar í brjáluðum fíling og fór heim þegar ég var næstum hætt að geta staðið í lappirnar af þreytu.
Í gær skellti ég mér í fjallgöngu með systur minni og tveimur vinkonum hennar. Ætluðum á hnjúkana austan við Esjuna (man ekki alveg hvað þeir heita) en komumst ekki alveg á toppinn því það var svo svakalega hvasst. Fengum samt fínasta útsýni því veðrið var bjart. :)

Thursday, May 19, 2005

...svo færist aldur yfir eins og galdur

Sjitt!
Ég fékk óneitanlega smá sjokk í morgun þegar ég uppgötvaði að síðasta tuttuguog- árið er að byrja... en maður þarf bara að massa þetta ár og þá verður í fínu lagi að verða 30! Er það ekki bara??? ;)

Tuesday, May 17, 2005

Ef það væri nú alltaf frí á mánudögum...

Ég myndi sko alveg vilja vera í fríi alla mánudaga. Þetta var alveg snilldar helgi. Fór á leikritið "Riðið inn í sólarlagið" á föstudagskvöldið og skemmti mér mjög vel. Á laugardaginn gerðist ég svakalega menningarleg og fór með múttu á 5 sýningar á Listahátíð og hún bauð mér svo út að borða. Svo var djammað, fyrst í partýi hjá Sunnu og svo í bænum. Ég skemmti mér konunglega en kvöldið endaði í svaka rugli niðri í bæ. Einhver vitleysingi og örugglega dópisti réðst á pis og hrinti honum í götuna. Þá kom Albert, sem er að vinna með Davíð og Rúnu á VST, og ætlaði að skakka leikinn því gaurinn ætlaði að sparka í pis liggjandi í götunni. Þá kýldi dópistinn Albert og hann fékk þvílíku blóðnasirnar og varð ekkert rosa glaður. Albert ætlaði að hjóla í gaurinn en hann fór.... og þegar við fórum heim held ég að Albert hafi ennþá verið að leita að gaurnum... Vona að hann hafi ekki fundið hann! Þetta var eiginlega frekar skerí!

Monday, May 09, 2005

Afmæli aldarinnar!

Fór í rosa skemmtilegt afmæli til Siggu Dóru á föstudagskvöldið! Hún var sko búin að tala mikið um það að hún ætlaði að elda svaka galadinner handa okkur og við ákváðum þá að koma henni á óvart og mæta í galaklæðnaði!!! Vorum í síðkjólum með hanska og fjaðrir og allar græjur og svo borðuðum við þessa líka dýrindismáltíð...mmmmm... þvílíkt ljúfmeti!
Upp úr miðnætti ákváðum við svo að taka lagið, ég spilaði á píanó og Sigga á gítar og svo var trallað og trallað og trallað... Aumingja fólkið í húsinu hennar Siggu, við sungum ekkert voða lágt og til merkis um hvað ég spilaði ljúflega á píanóið þá voru alla vega fimm neglur brotnar... og Sigga var með risa blöðru á gítarfingrinum sínum. Þegar við vorum komnar á fimmtu umferð í söngbókinni þá ákváðum við að skella okkur í bæinn... kl. hálf fimm!!! Það var náttúrulega búið að loka flestum stöðum en við römbuðum inn á Kaffibarinn og þar voru flestir soldið skrýtnir og með sítt skegg... Töluðum aðeins við tvo gaura en annar þeirra var frekar leiðinlegur og hinn var gaurinn úr Júrómyndbandinu hennar Selmu og hann var með ljótt hár... hehe....

Helgin var annars bara fín. Fór í mat til afa og ömmu á laugardagskvöldið. Gerðist svo svaka menningarleg í gær og fór með pabba, mömmu og Kristbjörgu á Þjóðminjasafnið. Rosa flott, mæli með þessu og ég þarf pottþétt að fara aftur, maður náði sko ekki að skoða allt í einni ferð.
Alla vega, fín helgi að baki!