Kristveig í Sveré

Thursday, June 16, 2005

Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið!

Jamm, nú ætla ég að taka mér sumarfrí innanlands í fyrsta skipti á ævinni! Ætla að fara heim í heiðardalinn og hjálpa pabba og mömmu við að mála húsið og fleira. Reyndar er spáin fyrir Norðurland ekkert allt of góð næstu daga en ég fer nú ekki fyrr en á laugardaginn og eftir að ég er mætt á svæðið hlýtur sólin að láta sjá sig... Það er eiginlega nauðsynlegt fyrir mig að fá nokkra sólardaga því ég náði mér í svo svaðalega ljótt brúnkufar á Heklu... Var sem sagt í ermalausum vaffhálsmálsbol og farið er er því ekki fínt!
Fékk að vita það í dag að ég er með svo lítið járn í blóðinu að það er varla mælanlegt og blóðrauðinn mældist ekki nema 122 svo að ég get nú alveg gleymt draumnum um að léttast við það að gefa blóð... :o( Nú verð ég bara að lifa á slátri og rauðu kjöti fram á haust en þá ætlar pabbi að mæla þetta aftur.
Það helsta sem er annars í fréttum er að ég er búin að fá inni í KTH í Stokkhólmi og fer sennilega út í kringum 20. ágúst! Jei! ...og það var nú ekki laust við að það færi smá lærdómsfiðringur um mig þegar þetta var ljóst. Það er alltaf svo gaman að byrja í skólanum!
Jæja, segi þetta gott í bili,
Túrílú, Kristveig

Monday, June 13, 2005

Hekla sigruð!

Við Auður fengum að fara með í frændsystkinaferð Dagnýjar á Heklu á laugardaginn. Veðrið var fullkomið; sól, logn og örugglega hátt í 20 stiga hiti! Ferðin var algjörlega brilliant og ótrúlega gaman að sjá heita hraunið á toppnum eftir að hafa gengið á jökli upp mest alla hlíðina. Útsýnið var svo auðvitað svakalega flott! Eins og sönnum Íslendingi sæmir þá bar ég ekki á mig sólarvörn og er því frekar brunnin... hehemmm..
Í gær fór ég í skírn til Baldurs, bekkjarbróður míns úr MA, en skyndilega breyttist skírnin í brúðkaup, öllum að óvörum! Rosa krúttleg athöfn sem var haldin í grasagarðinum í Laugardal! Ég held ég sé ennþá í sjokki yfir þessu! :o) ...en það er gaman að sjá að það eru ekki allir að missa sig í risavaxin og rándýr brúðkaup sem bera þess oft merki að menn séu búnir að missa sjónar á aðalatriðinu...

Friday, June 10, 2005

Sahaja jóga

Fór í Sahaja jóga í gærkvöldi og það var eiginlega alveg merkileg upplifun og alla vega það forvitnileg að mig langar að fara í næsta tíma. Kann nú ekki alveg að skýra frá því í stuttu máli út á hvað þetta gengur en eitt málið er t.d. að maður hugsar allt of mikið! ...og maður á að læra að hvíla hugann og hreinsa út óþarfa tilfinnigar eins og sektarkennd sem er alltaf að flækjast fyrir manni. Æi, þetta hljómar kannski ekki alveg nógu sannfærandi hjá mér en ég mæli alla vega með þessu. Það er ókeypis að mæta og byrjunartímar eru á fimmtudagskvöldum kl. 20 í Borgartúni 20 (sama húsi og VSÓ). Ætli VSÓ gellurnar séu ekki búnar að prófa þetta...

Í gær fór ég líka í blóðbankann og ætlaði að gefa blóð (megrunartips Huldu...hehe...) en þá er kerfið þannig að þó ég hafi gefið blóð á Akureyri þá er ekki sameiginlegur gagnagrunnur hér og þar svo að það þarf að blóflokkagreina mig aftur og gera alls kyns próf áður en ég get gefið. Ég þarf því að bíða í tvær vikur með að léttast um þetta hálfa kíló...

Monday, June 06, 2005

Helgarpistillinn

Helgin byrjaði nú ekki vel. Það hefur einhver hálfviti keyrt á bílinn minn hér fyrir utan vinnuna mína á föstudaginn og síðan bara drifið sig í burtu og eftir sit ég með sárt ennið og beyglaðan bíl! :o(
Að öðru leyti var helgin góð. Við söngskólasysturnar hittumst á föstudagskvöldið hjá mér, borðuðum góðan mat, dukkum rautt og hvítt, kjöftuðum óendanlega mikið og ein tilkynnti um óléttu sína!!!
Á laugardaginn keypti ég mér nýja og fína skó og fannst tilvalið að rölta berfætt í þeim fram og aftur um Laugaveginn... hmmmm... það endaði náttúrulega með nokkrum blöðrum... en eins og margþekkt er þá gildir "bjútí is pein" alltaf...
Fór á tónleika með An Sofie von Otter á laugardagskvöldið og hún er algjört æði!!!
Í gær fór ég svo á tvær listasýningar og útgáfutónleika með Hildi Völu. Tónleikarnir voru rosa fínir og hún er svooo mikið krútt hún Hildur Vala!

Thursday, June 02, 2005

Enn einn tindurinn sigraður!

Við Dagný skelltum okkur upp á Helgafell (rétt hjá Hafnarfirði) í gær eftir vinnu og fengum rosa fínt veður! Þetta er mjög þægileg ganga og við vorum um 1 og 1/2 klst. á göngu. Nú erum við orðnar óstöðvandi í fjallamennskunni og munum sennilega stefna á Everest næsta sumar... hehe...